Föstudagur: Helstu upplýsingar

Í dag, föstudag, klárast riðlakeppnin á N1 mótinu og við tekur úrslitakeppni um lokasæti á mótinu. Reyndar kláruðust riðlarnir í Grísku deildinni í gær og hefst úrslitakeppnin í þeirri keppni klukkan 12:25 í dag.

Þegar riðlakeppnin er búin breytist úrslitasíða keppninnar og taka þá við leikirnir í úrslitakeppninni. Hér fyrir neðan eru hlekkir á úrslitasíður hverrar keppni fyrir sig:

Argentíska deildin

Brasilíska deildin

Chile deildin

Danska deildin

Enska deildin

Franska deildin

Gríska deildin

Eins og alltaf færum við vallarnúmerin og hér má sjá vallarplan dagsins í dag:

Vallarplan - Föstudagur 1. júlí

Ljósmyndun Pedromynda

Pedromyndir hafa verið að mynda keppendur á meðan leikjunum stendur en í dag munu þeir einnig taka liðsmyndir. Þeir eru með aðstöðu við völl 9 í dag sem er rétt hjá þar sem liðin ganga inn í matsalinn. Lið geta komið til þeirra í myndatöku frá klukkan 11:00 til 17:00. Einnig hefst sala á ljósmyndum þeirra í dag.

Freestyle sýningar í dag

Ekki verður aðeins hægt að fylgjast með frábærum fótbolta á N1 mótinu sjálfu heldur gefst mótsgestum einnig tækifæri á að sjá magnaða takta tveggja atvinnumanna í svo kölluðum "Freestyle" fótbolta sem hefur notið mikilla vinsælda á undanförnum árum.

Soufiane Bencok hefur unnið fjölmargar "Freestyle" og "Street style" keppnir út um allan heim og komst í 8 manna úrslit á HM í "Freestyle" fótbolta 2011, 2012 og 2013.

Ilyas Touba er, þrátt fyrir ungan aldur, margfaldur "Street style" og "Panna KO" meistari. Hann varð heimsmeistari í "Panna KO" 2014 og er ríkjandi Evrópumeistari sömuleiðis.

Þeir félagar verða með þrjár sýningar í dag á sparkvellinum við Lundarskóla en Lundarskóli er við hliðina á KA-svæðinu. Sýningarnar eru klukkan 11:00, 14:30 og 16:30.

Fararstjórafundur kvöldsins

Eins og fyrri kvöld þá er fararstjórafundur í kvöld klukkan 22:00, hinsvegar gerum við aðeins betur við okkur en áður og höldum fund kvöldsins á Strikinu þar sem verða í boði léttar veitingar. Mjög mikilvægt að öll félög eigi aðila á fundinum.

Víkingaklapp fyrir EM sjónvarpið

Eins og allir vita þá leikur Ísland gegn Frökkum í 8-liða úrslitum EM á sunnudaginn. Klukkan 16:00 í dag ætlum við að hópast saman á gervigrasvellinum og taka víkingaklappið fræga, það verður tekið fyrir framan myndavél SportTV og verður svo sýnt í EM sjónvarpinu, það er því um að gera að fjölmenna og ná upp magnaðri stemningu fyrir sjónvarpið, áfram Ísland!



Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  saevar@ka.is