N1 mótið 2025 fer fram dagana 2.-5. júlí
Flýtilyklar
N1 mótið hefst á morgun!
N1 mót KA hefst á miðvikudag og byrja fyrstu leikir klukkan 12:00. Það er því gott að minna á nokkra punkta svo allt gangi sem best fyrir sig á mótinu.
Allir leikir á miðvikudeginum eru 2x12 mínútur. Í kjölfarið verða leikirnir svo 2x15 mínútur fimmtudag til laugardags. Við minnum á að í forkeppninni fara efstu tvö liðin í riðlinum í efri keppnina og neðri tvö í neðri keppnina. Innbyrðisviðureign þeirra liða sem enda í sömu keppninni fylgir þeim áfram.
- Það er gríðarlega mikilvægt að allir fari eftir öryggisatriðum mótsins. Lykilatriði til þess að mótið gangi vel er að gestir okkar virði svæðaskiptinguna á vallarsvæðinu og félög virði fjöldatakmarkanir fullorðinna í skólum. Einn til tveir liðstjórar hámark í skólum en liðstjóraarmband getur færst milli aðila innan félags.
- Við ráðleggjum liðum að sleppa því að takast í hendur að leik loknum. Æskilegt væri að lið myndu klappa fyrir áhorfendum og um leið klappa fyrir andstæðingum. Þetta er gert til að minnka snertingu milli leikmanna.
- Við hefjum afhendingu á mótsgögnum og armböndum í KA-Heimilinu kl. 10:30 á miðvikudeginum og hvetjum félög til að sækja sem fyrst til okkar og koma armböndunum í kjölfarið strax til keppendanna. Mótsgjafir og mótsgögn eru einungis afhentar heilu félagi í einu ekki hverju liði fyrir sig.
- Einungis liðsstjórar hvers liðs mega fara inn á gistipláss liðanna auk þess sem að þeir eru einu aðilarnir sem fara með liðinu í bíó.
- Fararstjórafundur er í KA-Heimilinu kl. 22:30 á miðvikudag og hvetjum við öll félög að senda fulltrúa á fundinn.
- Vellir 1-4 eru saman á öryggissvæði með salerni og sjoppu (rauðmerkt á mynd)
- Vellir 5,6,11 og 12 eru saman á öryggissvæði með salerni og sjoppu í Lundarskóla (gulmerkt á mynd)
- Vellir 7-10 eru saman á öryggissvæði með salerni og sjoppu við KA-Heimilið (blámerkt á mynd)
Á miðvikudag og fimmtudag er einnig leikið á Greifavellinum. Þar eru vellir 13-16 og er salerni og sjoppa í stúkunni á vellinum. Áhorfendur fyrir leiki á völlum 13-15 skulu vera í stúkunni á vellinum en áhorfendur við völl 16 geta farið inn á vallarsvæðið og komið sér fyrir í kringum þann völl.