Tjaldsvæði

Við bjóðum gesti velkomna á tjaldsvæðin á Akureyri í sambandi við N1 mótið. Tjaldsvæðin á Akureyri eru tvö. Annað við Þórunnarstræti og hitt að Hömrum við Kjarnaskóg.
Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti er ekki nægilega stórt til að anna eftirspurn um þessa miklu ferðahelgi. En tjaldsvæðið að Hömrum er risastórt og getur tekið á móti 2-3000 gestum. Við gerum okkar besta til að skipuleggja móttöku tjaldgesta þannig að sem flestir fái þá þjónustu sem þeir óska eftir. Mikil ásókn hefur verið í það að láta taka frá svæði fyrir ákveðna hópa á báðum tjaldsvæðum. Á undanförnum árum hefur það verið vandamál að við höfum tekið frá svæði fyrir ákveðinn fjölda tjalda og vagna, en síðan hafa þeir ekki mætt með þann fjölda. Einnig er erfitt að verja það að taka frá svo mikið svæði fyrir eina til tvær nætur þegar eftirspurn eftir svæðinu er alla vikuna.

Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti

Á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti verður reynt að skipta svæðinu niður í reiti og setja upp merki þeirra félaga/hópa sem haft hafa samband. Tjaldverðir munu reyna að benda fólki á hvar líklegt sé að finna svæði þar sem aðra úr hópnum sé að finna. Þessi svæðaskipting er þó eingöngu til þæginda fyrir tjaldgestina en ekki hægt að líta á skiptinguna þannig að viðkomandi blettur sé frátekinn fyrir ákveðna aðila. Ef svæðið er að fyllast á þriðjudag eða miðvikudag, getum við ekki vísað tjaldsgestum frá sem hyggjast dvelja hjá okkur um lengri tíma vegna einhverra sem hugsanlega eiga eftir að bætast í hóp hvers félags. Því getum við ekki ábyrgst að allir ná að halda hópinn.

Tjaldsvæðið að Hömrum

Á tjaldsvæðinu að Hömrum (við Kjarnaskóg), sem er um 10 sinnum stærra en tjaldsvæðið að Þórunnarstræti getum merkt svæði fyrir félög/hópa sem það kjósa. Þeir sem vilja láta merkja sér svæði verða að hafa samband og tilkynna um ca. fjölda tjalda, vagna og áætlaðan fjölda tjaldgesta 14 ára og eldri sem ætla að koma. Svæðið býður upp á marga skemmtilega kosti varðandi afþreyingu og leiki.

Hamrar eru í um 5 mínútna akstri frá KA heimilinu og miðbæ Akureyrar. Svæðið er ákaflega skemmtilega staðsett, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk, í friðsælu umhverfi norðan við Kjarnaskóg. Á svæðinu eru ýmis leiktæki fyrir börn, hægt er að horfa á sjónvarp, boltavöllur og tjörn þar sem hægt er að fá leigða báta. Risa-fótboltaspil, folfvöllur og mini-golf.

Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að félög hafi boðað til grillveislna inni á tjaldsvæðinu. Þetta hefur orsakað mikinn óþarfa akstur um svæðið og valdið tjaldgestum hættu og ónæði.

Síðustu tvö ár hefur fyrirkomulagið verið þannig:
Öðrum en dvalargestum svæðisins er ekki heimilt að aka inn á svæðið.
Bílastæði utan svæðis eru mjög takmörkuð og verða utanaðkomandi gestir í grillveislur að gera ráðstafanir til að fækka bílum t.d. með sameiginlegum ferðum upp á Hamra.

Verðskrá tjaldsvæðanna

Gistigjöld á báðum tjaldsvæðunum er 1.400 kr. fyrir hverja nótt fyrir 18 ára og eldri. Gistiskattur er 100 kr. fyrir nótt á hverja gistieiningu. Veittur er afsláttur ef greitt er fyrir fleiri nætur saman og virkar það þannig að fyrsta nóttin er á 1.400 kr. og aðrar nætur á 1.200 kr. Þannig greiðist 1.400 kr. fyrir eina nótt, 2.600 kr. fyrir tvær, 3.800 kr. fyrir þrjár o.s.fv.
Ath. Þetta á eingöngu við ef greitt er fyrir allar næturnar í einu.
Aðgangur að rafmagni kostar 900 kr. fyrir hvern sólarhring. Takmarkaður aðgangur er að rafmagni á Þórunnarstrætinu en betri möguleikar að Hömrum.
Þvottur kostar 400 kr., þvottaefni 100 kr. og þurrkari 400 kr. hvert skipti. Aðgangur að sturtum kostar 300 kr. á Þórunnarstrætinu en er inni í gjaldinu að Hömrum.

Reglur á tjaldsvæðunum

1. Tjaldsvæðið er fjölskyldutjaldsvæði og yngri en 18 ára skulu vera í fylgd með forráðamanni. Við sérstakar aðstæður geta aldurstakmörk verði hærri.
2. Gestum ber að hafa samband við tjaldvörð og greiða dvalargjöld.
3. Umferð ökutækja á tjaldsvæðinu á að vera lágmarki og er takmörkuð við akstur inn og útaf svæðinu. Hámarkshraði er 15. km/klst.
4. Ekki má rjúfa næturkyrrð, vera með háreysti eða valda óþarfa hávaða með umferð eða öðru.
5. Virða ber næturkyrrð á milli kl 24 og 08.
6. Ölvun er bönnuð á tjaldsvæðinu.
7. Sorp skal sett í þar til gerð ílát, flokkað eftir þeim reglum sem gilda á tjaldsvæðinu.
8. Hundar mega aldrei vera lausir á tjaldsvæðinu eða valda öðrum gestum ónæði eða ótta..
9. Vinnið ekki spjöll á náttúrunni, húsnæði eða búnaði tjaldsvæðisins.
10. Brot á umgengnisreglum getur varðað brottrekstri af tjaldsvæðinu.

Samskipti við tjaldsvæðin

Við bendum á Tryggva Marinósson sem er framkvæmdastjóri tjaldsvæðisins á Hömrum.
GSM: 843-0002 / 862-2279
Tölvupóstur: tryggvi@hamrar.is
Heimasíða: www.hamrar.is


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  KA@KA.IS