Strákarnir í 3. fl B komnir í úrslitaleikinn

Strákarnir í 3. fl B komnir í úrslitaleikinn
Liðsmynd eftir leik.

3. flokkur karla B-lið vann Víking R. 5-2 í undanúrslitaleik Íslandsmótsins og leikur því til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Hinn undanúrslitaleikurinn fer fram á þriðjudag þegar Stjarnan mætir Selfoss/Hamar/Ægi. Að honum loknum verður gefið út hvar og hvenær úrslitaleikurinn verður.

Undanúrslitaleikurinn gegn Víking byrjaði ekki vel þar sem okkar menn lentu 2-0 undir og voru ólíkir sjálfum sér. Fljótlega eftir annað markið þá barst boltinn eftir gott samspil á miðvörðinn Eyþór Erni sem skaut knettinum óverjandi í stöngina og inn. Hvað Eyþór var að gera í vítateig andstæðingana er þó góð spurning.

Allt leit út fyrir að Víkingar myndu leiða í hálfleik þegar langt útspark Steinars Adolf skoppaði yfir varnarmenn Víkinga á blautu grasinu. Strikerinn Ómar Logi var fljótur að átta sig og komst einn á móti markmanninum sem tók Ómar niður og vítaspyrna réttilega dæmd. Fyrirliðinn og vítaskyttan Agnar Ingi steig á punktinn og skoraði af öryggi. Hálfleikstölur 2-2 og meðbyrinn var klárlega með okkar mönnum sem áttu þó nóg inni.

KA byrjaði seinni hálfleikinn betur og bar það árangur þegar Gunnar Darri sýndi góða takta á vinstri kantinum og kom með góðan bolta inní sem Ómar Logi skallaði að öryggi í markið. Sókn KA hélt áfram og eftir gott samspil endaði boltinn hjá vinstri bakverðinum Þorsteinn Ágúst sem var mættur inn í teig þar sem hann skoraði fjórða mark KA.

Ef einhverjir höfðu efasemdir að okkar menn kæmust í úrslit þá slökkti Hlynur Viðar þær efasemdir þegar hann skoraði eftir stoðsendingu frá Hilmi Má þegar um 10 mínútur voru eftir. Þetta reyndist síðasta mark leiksins og fögnuðu KA-menn vel í leikslok enda farseðill í úrslitaleik Íslandsmótsins kominn í hús.




Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | fotbolti@ka.is