Strákarnir í 3. fl B Íslandsmeistarar!

Strákarnir sigurðu Stjörnuna 3-1 í úrslitaleik á Blönduósi og eru því Íslandsmeistarar 2016. 

Það voru toppaðstæður þegar að úrslitaleikur KA og Stjörnunar í 3. fl karla B-liða var leikinn á Blönduósi á sunnudaginn. Fyrirfram var búist við hörkuleik en áður höfðu liðin gert 3-3 jafntefli og þá höfðu Stjörnumenn betur á Samsungvellinum 5-4 í upphafi mánaðarins.

Fyrsta mark leiksins skoraði Eyþór Ernir á 13. mín eftir að hafa verið manna ákveðnastur í teignum eftir hornspyrnu Gunnars Darra. Einungis fimm mínútum síðar komst Ómar Logi einn gegn varnarmanni frá miðju. Ómar gerði vel, lék tvisvar sinnum á hann með góðum stefnubreytingum áður en hann lagði boltann snyrtilega fram hjá markmanni Stjörnunar. 

Hálfleiksstaða var 2-0 sem var nokkuð sanngjörn en okkar menn lögðu allt sitt í fyrri hálfleikinn.

Seinni hálfleikur var um korters gamall þegar að sóknarmaður Stjörnunar slapp innfyrir vörn KA. Steinar Logi markmaður KA kom á móti út fyrir teig með þeim afleiðingum að þeir lentu í hörkulegu samstuði. Steinar var aðeins á undan í boltann og fékk því Stjörnumaðurinn rautt spjald en ljóst er að ef flautað hefði verið í hina áttina að okkar maður hefði fokið útaf.

Það var þó ekki að sjá að Stjarnan hefðu misst mann af velli heldur var þetta vendipunktur í leiknum. Stjarnan gaf allt í og áttu fína spilkafla. Það bar árangur þegar 10 mín voru eftir þegar Garðbæingurinn Helgi Jónsson minnkaði muninn. 

Á loka mínutu venjulegs leiktíma tryggði Gunnar Darri sigur KA með góðu marki eftir að boltinn barst til hans eftir aukaspyrnu. Hann sýndi mikla yfirvegun og lagði boltann í hornið. Þetta var þó ekki síðasta markverða sem gerðist þar sem Stjarnan fékk vítaspyrnu þegar fjórar mínutur voru komnar yfir leiktímann. Sem betur fer brást spyrnumanninum bogalistin þar sem boltinn fór í innanverða stöngina og út. Mínútu síðar flautaði dómari leiksins leikinn af og KA því Íslandsmeistari 3. fl drengja B-liða 2016!

Strákarnir eru vel af þessu komnir miðað við það hugafar sem þeir sýndu á Blönduósi. Hver og einn einasti gaf allt í leikinn og sýndu þeir mikinn sigurvilja. 

Við óskum drengjunum og þjálfurum þeirra til hamingju með þennan glæsilega árangur!



Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | fotbolti@ka.is