Lokahóf 3. fl

Lokahóf 3. fl
Hjörvar, Pétur Þorri og Aron Dagur.

Krakkarnir í 3. fl slúttuðu sumrinu í síðustu viku. Stelpurnar hittust í Litla-Garði á fimmtudaginn og fengu þar hamborgaraveislu frá Greifanum. Strákarnir hittust degi seinna í KA þar sem þeir fóru í bolta, pottinn og að lokum voru grillaðir hamborgarar. Góður endir á skemmtilegu sumri hjá þessum flokkum.

Þjálfarar gáfu eftirfarandi verðlaun:

Besti leikmaður 3. kv 2014: Anna Rakel Pétursdóttir
Rakel átti gott tímabil með 3. kv en hún var markahæsti leikmaður A-deildar með 14 mörk í 13 leikjum ásamt því að skora tvö mörk þegar KA varð bikarmeistari Norður- og Austurlands. Rakel lék sex leiki fyrir U17 ára lið Íslands á árinu og skoraði eitt mark í þeim. Þá kom Rakel við sögu í 10 leikjum fyrir meistaraflokk Þór/KA og skoraði í þeim 2 mörk. 

Mestu framfarir 3. kv 2014: Sara Mjöll Jóhannsdóttir
Sara Mjöll hefur lagt mikið á sig og verið dugleg í gegnum tíðina að mæta hjá Sandori á markmannsæfingar. Sú vinna skilaði sér þegar hún var valinn í U17 á Norðurlandamótið þar sem hún lék tvo leiki. Sara Mjöll spilaði í sumar með 3. kv og 2. kv ásamt því að vera í æfingahóp meistaraflokks. 

KA-maður ársins 3. kv 2014: Harpa Jóhannsdóttir
Harpa stóð sig mjög vel í sumar og skipti hún á milli sín leikjunum með Söru í 3. kv og 2. kv ásamt því að vera í æfingahóp hjá meistaraflokk. Harpa lék sex leiki með U17 ára liði Íslands á árinu og hélt t.d. hreinu í þremur fyrstu leikjunum. Harpa fær þó ekki þessa nafnbót fyrir þann árangur heldur þar sem hún er alltaf tilbúin að leggja sitt af mörkum fyrir félagið, er mikil keppniskona og hefur jákvæð áhrif á flokkinn. Frábær KA-maður sem yngri iðkendur mættu líta upp til.

Besti leikmaður 3. kk 2014: Aron Dagur Jóhannsson
Aron Dagur átti frábært sumar og var mjög öruggur á milli stanganna. Hann kórónaði gott sumar með að tryggja KA bikarmeistaratitil gegn Þór með að verja tvær spyrnur í vítaspyrnukeppni. Aron Dagur var mjög einbeittur á að bæta sig á þessu tímabili og æfði hann vel bæði hjá 3. fl og hjá Sandori.

Mestu framfarir 3. kv 2014: Pétur Þorri Ólafsson
Pétur Þorri átti fínan vetur með B-liði 3. flokks en vegna forfalla þá var honum hent í djúpu laugina í fyrsta leik á Íslandsmóti með A-liðinu. Hann stóð sig virkilega vel í þeim leik og hélt sæti sínu út sumarið. Pétur Þorri lék í hjarta varnarinnar og lék hann mjög skynsamlega og gerði hlutina einfalt líkt og miðverðir eiga að gera.

KA-maður ársins 3. kk 2014: Hjörvar Sigurgeirsson
Hjörvar var annar af fyrirliðum 3. kk í sumar. Á vellinum þá er hann að allan tímann og fer fyrir sínu liði með dugnaði og ákveðni. Hann gefst aldrei upp og er gott dæmi þess að hann kláraði bikarúrslitaleikinn eftir að hafa fengið slæmt högg á höndina en eftir leikinn lét hann lækni kíkja á þetta sem endaði með að hann var settur í gifs. Hjörvar fær einnig þessa nafnbót fyrir að vera hvetjandi, duglegur og góður liðsfélagi. Líkt og Harpa mættu allir KA-menn taka hann til fyrirmyndar. 



Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | fotbolti@ka.is