Frábært ár að baki

Frábært ár að baki
Það er gaman að vera KA-maður!

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

Árið 2015 var mjög gæfuríkt fyrir yngriflokka KA í knattspyrnu. Iðkendur hafa aldrei verið fleiri og árangurinn sjaldan ef einhverntíman verið betri.

Um veturinn tóku KA-lið þátt á Stefnumótum, Goðamótum og 5. fl. karla móti Breiðabliks. Einnig voru leiknir fjölmargir æfingaleikir og æft vel þess á milli.

Flottur vetur gaf því góð fyrirheit fyrir sumarið sem reyndist raunin. Yngstu flokkarnir tóku þátt á öllum stærstu knattspyrnumótum landsins og var árangurinn sérlega glæsilegur. Þessi mót gefa krökkunum mikið og eru eflaust margir farnir að hlakka til að fara til Eyja, á Skagann eða í Kópavog á fótboltamót næsta sumar.

Á Akureyri héldum við tvo viðburði sem við getum verið stolt af en í júní var Arsenalskólinn þar sem bros mátti sjá á hverju andliti, enda frábærir þjálfarar frá Arsenal sem sáu til þess að vikan væri sem skemmtilegust fyrir alla aðila. Í byrjun júlí var N1-mótið sem var í stærri kantinum í þetta skiptið. Líkt og áður þurfa allir að leggjast á eitt þannig þetta mót gangi eins og best verður á kosið. Strákarnir í 4. fl. hlupu á milli valla með dómarakort, stelpurnar í 4. fl. hjálpuðu til í matsalnum, strákarnir í mfl.-3. fl. sáu um dómgæsluna, stelpurnar í 3. fl. sáu um sjoppuna ásamt öllum þeim foreldrum og sjálboðaliðum sem komu að mótinu með einum eða öðrum hætti.

September var KA einkar góður en þar ber helst að nefna Íslandsmeistaratitla 4. fl. karla í A-liðum og 3. fl. karla í B- og C-liðum. Ásamt bikarmeistaratitili 3. fl. kvenna og góðum árangri á Íslandsmóti hjá 3. fl. karla A-lið, 3. fl. kvenna A-lið og 4. fl. karla B- og C-liða. Einnig ber að nefna að 2. fl. karla A og B-lið áttu mjög fl.ott sumar og þá varð 2. fl. Þór/KA kvenna bikarmeistari.

Í lok sumars þá tók Alli við yfirþjálfarstöðunni af Pétri Óla. Að öðru leiti fór svipaður þjálfarahópur inn í veturinn sem verður að teljast styrkleiki enda er mikilvægt í starfi sem þessu að hafa stöðugleika.

Veturinn hefur byrjað vel og erum við mjög stolt hversu vel hefur gengið með KA-rútuna sem er tilraunarverkefni í vetur. Ávinningur rútunar er mikill fyrir félagið, iðkendur og foreldra. Í lok nóvember þá héldum við Stefnumót fyrir 6.-8. fl. og KA-bingó sem fjáröflun upp í rútuna. Þar lögðust allir á eitt sem og áður og útkoman var eftir því.

Á árinu spiluðu eftirfarandi leikmenn sem komu upp úr yngriflokkastarfi KA unglingalandsleiki: Anna Rakel Pétursdóttir, Aron Dagur Birnuson, Daníel Hafsteinsson, Harpa Jóhannsdóttir, Margrét Árnadóttir, Ólafur Hrafn Kjartansson, Saga Líf Sigurðardóttir og Ævar Ingi Jóhannesson. Þá átti Haukur Heiðar Hauksson frábært tímabil með AIK þar sem hann var fastamaður í bronsliði sænsku úrvaldsdeildarinnar. Haukur Heiðar spilaði einnig á árinu þrjá A-landsleiki.

Nú hefst nýtt ár með nýjum áskorunum. Við ætlum að halda áfram að vera framúrskarandi félag. Áfram KA!



Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | fotbolti@ka.is