Frábær ferð til Gautaborgar

Frábær ferð til Gautaborgar
U16 stelpurnar og sænskt lið.

Klukkan 6:00 föstudaginn 10. júlí var brottför frá KA-heimilinu hjá 3. flokkum félagsins. Föstudagurinn fór í að ferðast til Gautaborgar og kom hópurinn í skólann sem var gist upp úr 10 á staðartíma. Þrátt fyrir langt ferðalag kom ekki annað til greina en að fara á næsta McDonalds sem var í göngufjarlægð.

Laugardagurinn fór í að skoða svæðið og fóru strákarnir í sund á meðan stelpurnar vildu frekar fara að versla. Strákarnir voru þó fljótir að finna HM eftir sundferðina þar sem stuttbuxur og bolir voru vinsælustu vörurnar enda var veðrið eftir því. Um kvöldið var safnast saman á veitingastað rétt hjá skólanum þar sem við fengum leyfi til að sjá KA vinna Þór á Akureyrarvelli.

Á sunnudaginn gátu krakkarnir keypt sér viku Gothiapassa í Liseberg sem er skemmtigarður í Gautaborg. Flest þeirra nýttu sér það enda var það vinsælt að fara í Liseberg út vikuna. Um kvöldið var farið á IFK Gautaborg - IFK Norköpping sem var toppslagur í Allsvenska úrvaldsdeild Svíþjóðar. Hjálmar Jónsson var ónotaður varamaður hjá Gautaborg en Keflavíkingurinn Arnór Ingvi átti ágætis leik með Norköpping í markalausu jafntefli þar sem Gautaborg klúðraði víti þegar skammt var eftir.

Á mánudagskvöldið fór fram glæsileg opnunarhátíð þar sem um 50.000 manns bæði keppendur, foreldrar og aðstendur mættu á Gamla Ullevi þar sem flutt voru flott tónlistaratriði ásamt magnaðri flugeldasýningu í lokin.

Riðlakeppni mótsins fór fram mánudag til miðvikudags þar sem strákaliðin þrjú léku gegn liðum frá Svíþjóð, Þýskalandi og Eistlandi en stelpuliðin tvö gegn liðum frá Svíþjóð og Noregi. Efstu tvö liðin í hverjum riðli komust í A-úrslit og áttum við þar þrjú lið en tvö lið fóru í B-úrslit. 

Í útsláttarkeppninni mættum við liðum frá Svíþjóð, Englandi og Bandaríkjunum áður en liðin þurftu að sætta sig við að vera úr leik. Lengst komst stelpna 16 ára liðið eða í 16-liða úrslit en þá komust jafnaldrar þeirra hjá strákunum í 32-liða úrslit af 186 liðum. 

Á föstudaginn og fyrri part laugardags var frítími þar sem krakkarnir nutu þess að vera saman í útlöndum áður en þau héldu heim seinni part laugardags. Þreyttur en sáttur hópur kom heim í KA-heimilið aðfaranótt sunnudagsins 19. júlí.

Krakkarnir, þjálfarar, fararstjórar og aðrir sem komu að ferðinni eiga hrós skilið hversu vel ferðin heppnaðist. Iðkendur 4. flokks mega nú þegar fara hlakka til að þau fara í slíka ferð en KA fer á öðru hverju ári með krakkana í 3. fl.

 

 



Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | fotbolti@ka.is