Coerver Coaching International Camp 19.-23. júní á Akureyri

Líkt og undanfarin ár þá verður knattspyrnuskóli á KA-svæðinu í kringum 17. júní. Í sumar verður skólinn haldinn dagana 19.-23. júní.

Síðustu sjö ár hefur Arsenalskólinn verið haldinn en vegna breytinga á fyrirkomulagi skólans sjá þeir sér ekki fært um að heimsækja Ísland að þessu sinni.

Eftir að hafa skoðað ýmsa mögulega var tekin ákvörðun að fara í samstarf við Coerver International Camp. Ástæða þess er að Coerver Coaching getur boðið upp á mjög faglega þjálfun sem ætti að geta komið knattspyrnuskólanum á næsta stig.

Markmið skólans að þessu sinni verður að krakkarnir fái að upplifa að æfa í eina viku eins og atvinnumenn. Það verða tvær æfingar á dag með hlé á milli þar sem þau fá heitan hádegismat og fræðslu. Þá verður sú breyting gerð að hópnum verður skipt upp í tvennt og mun annar hópurinn æfa 9:00-14:30 og hinn hópurinn 10:45-16:15. Skólinn verður áfram fyrir 3.-6. flokk (árg. 2001-2008).

Þrír erlendir þjálfara munu starfa við knattspyrnuskólann ásamt íslenskum þjálfurum.  Þjálfarar koma frá Coerver Coaching. Erlendu þjálfararnir eru Jorge frá Portúgal sem starfar fyrir knattspyrnuakademíu Porto. Hann er í ársleyfi frá Porto til að starfa fyrir Coerver Coaching. Jorge starfað áður í mörg ár í knattspyrnuakademíu Braga.  Manúel er frá Spáni og er margreyndur þjálfari hjá Coerver Coaching og hefur m.a. starfað fyrir Real Madrid. Eskil Rokke kemur frá Noregi þar sem hann hefur meðal annars starfað með Coerver Coaching í tengslum við stórlið Rosenborg. Skólastjóri er Heiðar Birnir Torleifsson yfirþjálfari Coerver Coaching á Íslandi.

Dagskrá - Hópur 1
9:00-10:30 Coerver æfing
10:30-12:00 Létt hressing, fyrirlestrar og frjáls tími
12:00-12:45 matur
13:00-14:30 Coerver æfing

Dagskrá - Hópur 2
10:45-12:15 Coerver æfing
12:15-13:00 matur
13:00-14:45 Fyrirlestrar og frjáls tími
14:45-16:15 Coerver æfing með léttri hressingu í lok æfingar

Verð í skólann er það sama og í fyrra, 25.000 kr fyrir fimm daga knattspyrnuskóla. Gjöfin í ár er einkar vegleg en flottur Adidas Coerver bolur fylgir gjaldinu.

Til að hafa gæðin sem allra best verða einungis 200 pláss í boði.

Skráning fer fram í Nóra - https://ka.felog.is.

Nánar um Coerver Coaching:

Coerver Coaching er æfingaáætlun í knattspyrnu sem starfar út um allan heim, og er undir áhrifum frá kennslu Wiel Coerver.   Coerver Coaching var stofnað árið 1984 af Alfred Galustian og Chelsea goðsögninni , Charlie Cooke.

Coerver® Coaching er:  Hugmynda- og æfingaáætlun í knattspyrnu sem þjálfar upp færni og hentar öllum aldurshópum en sérstaklega aldrinum 6-16 ára á öllum getustigum, og einnig foreldrum, þjálfurum og kennurum.  Hugmyndafræði sem einblínir á að þróa færni einstaklingsins og leikæfingar í smáum hópum.

Aðalmarkmið hugmyndafræði Coerver Coaching er:

  • Þjálfa færni, sjálfstraust og sköpunargleði hjá leikmönnum

  • Gera leikinn skemmtilegan á æfingum og leik

  • Kenna góðan íþróttaanda og virðingu fyrir allt og öllu

  • Virða sigur en ekki meir en gott hugarfar og frammistöðu

  • Bjóða upp á öruggt og lærdómsríkt umhverfi sem mætir sem best þjálfunarmarkmiðunum


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | fotbolti@ka.is