Um keppni barna og köll foreldra og þjálfara
Þegar börn fara að leika knattspyrnu hafa þau lært undirstöðuatriði íþróttarinnar og keppa til að fá örvun á íþróttaáhuga sinn, fá útrás og ánægju, þau sjá hvar þau standa og umfram allt læra þau að höndla sigur eins og að taka tapi og mótlæti.
Foreldrarnir fá yfirleitt ekki neinar leiðbeiningar um þeirra hlutverk og ræðst það oft af karakter hvers og eins ásamt eigin mati á þekkingu sinni hverning þau haga sér þegar leikur stendur yfir. Í þessu samhengi tók ég saman nokkra punkta sem komu fram á alþjóðlegri spjall og fræðslusíðu um knattspyrnuþjálfun (soccercoaching.net) þar sem unglingaþjálfarar ræddu um köll frá hliðarlínunni:
Höldum okkur á mottunni, það er ekkert sem segir að hróp og köll inn á völlinn geri neitt gagn og kannski eruð þið bara að trufla börnin ykkar. Lítum nánar á málið út frá þeim sem er að keppa. Í fyrsta lagi hefur sá sem er með boltann nógu mikið að hugsa þ.a hann þurfi ekki að hlusta um leið. Prófið að hugsa sjálf um leið og sífellt er kallað á ykkur – einbeitingin truflast og ólíklegra er að rétt ákvörðun sé tekin.
Við þurfum að hugsa um námsferlið í huga barnsins, það lærir með athöfnum að gera og upplifa. Ef við segjum barni alltaf hvað þa á að gera við boltann þá truflum við sjálfstæða ákvarðanatöku og sköpun og erum í raun að hamla námsferlinu.
Rangar ákvarðanir eru nauðsyn og lærir barnið af reynslunni en ef því er alltaf sagt hvað á að gera lærir það ekki. Ef rétt ákvörðun er valin með boltann þá er betra að barnið velji hana sjálf en fylgi ekki köllum frá línunni. Fyrir utan að rannsóknir hafa sýnt að slík köll skila sér illa inn á völlinn þ.e til þeirra sem eru með boltann og hugur þeirra er því upptekinn. Við þurfum að muna að aðalmarkmiðið með allri keppni barna er að gera þau að betri íþróttamönnum þ.a þó það sýnilega markmiðið að vinna leikinn náist þá getur of mikil áhersla á það og krafa frá foreldrum valdið því að börnin endist skemur í íþróttinni og að við sköpum ekki þá leikmenn sem við viljum. Það er kannski tilviljun en við þurfum ekki nema að líta á HM til að sjá hve leikmennirnir með innsæið og sköpunargáfuna eru fáir miðað við fjöldann. Leikmenn eins og Rivaldo og Zidane hafa klárlega fengið að þroskast ótruflað.
Börn þurfa líka að fá að sýna hvað þau hafa lært eins og í skólanum þar sem ögrunin er lítil ef þeim er alltaf sagt svarið í prófum.
Þjálfari frá Sparta í Holland vitnaði í grein þar sem reiknaður var tíminn í þessum samskiptum frá hliðarlínunni : Boltinn er í leik
* það tekur þjálfara/foreldri 1,1 sek, að sjá aðstæður og hugsa kallið,
* kallið sjálft tekur 1,9 sek,
* tíminn sem það tekur barn að heyra kallið/hljóðið og vinna úr upplýsingunum er 3 sek.
Því má segja að frá atburði á vellinum og þar til leikmaður hefur túlkað kallið hafa liðið 6 sekúndur. Á þeim tíma getur margt gerst og ólíklegt er að kallið breyti nokkru um það sem barnið “ætlaði sjálft” að gera við boltann. Líklegra er að kallið trufli og hafi neikvæð áhrif á það sem það ætlar að gera næst.
Margir þessara þjálfara tala um að börn hafi beðið sig að biðja foreldra sína að “halda kjafti” því að þau trufli sig. Spyrjið börnin hvað þau heyri, málið er að þau heyra ekki orðin en þau skynja tóninn. Svarið yrði því oftast “ pabbi er alltaf fúll eða reiður” en ekki hvað pabbinn er að segja. Ef barnið hefur skilning á leiknum þá veit það sjálft hvort það hafi gert mistök enda fer það sjaldnast milli mála því barnið nær ekki markmiði sínu með sinni athöfn. Það er því algjör óþarfi að ýfa sárin með því að kalla skammir inn á völlinn og á slíkt ekki að viðgangast. Þjálfararnir eiga að ræða við börnin í fyrir leik og í leikhléi en í raun er aðal kennslan utan keppni þ.e á æfingum. Stutt köll til þeirra sem eru boltalausir geta hjálpað en best er að kalla leikmann til sín ef þarf að segja honum til eða gefa honum hvíld á meðan hlutir eru leiðréttir.
Góður þjálfari sér hálfa mínútu fram í tímann hvort hlutirnir séu eins og hann vill og hann þekkir liðið best og hvað hann hefur lagt upp. Því getur verið ruglandi fyrir börnin að fá misvísandi köll frá fullorðna fólkinu. Hversu oft hefur maður ekki heyrt einhvern pabba kalla “skjóttu”, þegar kannski hefði verið réttara að gefa boltann. Leyfum því þeim sem hefur boltann að njóta þess í friði. Þó að foreldrar vilji vel með köllum sínum þá hafa börnin um nóg annað að hugsa á vellinum svo þau þurfi ekki líka að hlusta á foreldrana. Leikurinn er tími barnanna til að sýna foreldrunum hvað þau hafa lært.
Eitt fyrsta sem barnið þarf að læra er í raun að hlusta ekki á foreldrana þegar það er komið inn á völlinn. Því færri sem kalla, því líklegra er að það sem skiptir máli komist til skila en drukkni ekki í hávaðanum. Þjálfarinn á að einbeita sér að hinum varðandi hlaup, dekkun og samskipti. Foreldrarnir eiga að sjá um hvatningu og hól fyrir gott verk og hughreysta – “kemur næst”- “góð tilraun”- “ekki gefast upp”. Hvetjum liðið en ekki einstaka leikmenn.
Ef þjálfarinn og aðrir kalla of mikið þá erum við að búa til strengjabrúður og börnin fá ekki að læra af leiknum. Ef við viljum búa til leikmenn með innsæi sem eru fljótir að taka ákvarðanir þá höldum við köllum í lágmarki og þannig sköpum vi bestu leikmenn framtíðarinnar. Gott er fyrir þjálfara að tala við foreldrana sem hóp og skýra fyrir þeim leikfræði og hlutverk leikmanna og einnig að minna þau á að “kalla” á réttan hátt og fylgjast frekar með þeim atriðum sem farið var yfir. Eykur það skilning foreldra og um leið fá þeir sem lítið vit hafa á leiknum meira út úr áhorfi sínu. Foreldrar þið njótið leiksins betur með almennri hvatningu og hóli en að einbeita ykkur að eigin barni. Lítið á leikinn í víðara samhengi og leikinn sem hluta af þroskaferli barnsins og munið að það verða fleiri leikir. Það er í lagi að tapa og oftast læra börn meira af því ef þjálfarinn kann sitt fag.
Eftirfarandi eru orð erlends unglingaþjálfara :
“Sonur minn var 11 ára og í liði mínu. Við vorum að spila við lið sem við áttum að vinna en vorum í “ströggli”. Ég reyndi að hjálpa með miklu leiðbeiningum frá hliðarlínunni. Við töpuðum 2-1. Á leiðinni heim spurði ég son minn hvort leiðbeiningarnar hafi hjálpað eða hvort hann hafi heyrt þær. Hann svaraði: “Pabbi, það annaðhvort truflar mig við það sem ég er að gera eða ég loka á þær. Ég myndi spila betur ef þú segðir ekki neitt. Þú ert hvort eð er búinn að segja okkur hvað á að gera á æfingum!”
Fannst þjálfaranum þetta bestu leiðbeingar sem hann hafði sjálfur fengið.
Annar þjálfari spurði dóttur sína hvort hún hafi heyrt tilsögn hans frá hliðarlínunni. Hún svaraði: “Já, en það var ekki það sem ég var að hugsa”. Þjálfaranum varð því ljóst að meðan dóttirin var að meta stöðuna og að framkvæma þá var hann ekkert annað en truflun. Kemur þetta saman við reynslu höfundar og spjall hans við börn.
Leikmenn þurfa að fá leyfi til að leika þ.e þetta er þeirra leikur. Þeir þurfa að bera ábyrgð, þeir þurfa að taka ákvarðanir, þeir verða að tala saman um hvað er að gerast á vellinum. Því þeir eru saman eitt lið að leika fyrir sig og hver fyrir annan en ekki fyrir þá þjálfara og foreldra.
Þjálfarar og foreldrar : Munum að við megum ekki taka ákvarðanatökuna frá barninu, ef það er gert þá lærir það ekki. Gildir það sama hér og í öðru námi. Foreldrar lítið á fótboltavöllinn sem kennslustofu, æfingarnar eru kennslustundir og kappleikir eru prófin. Aldrei myndi foreldri fara inn í kennslustofu og skipta sér af þ.a barnið heyri. Flestir færu aftast í bekkinn og hefðu hljóð. Með miklum afskiptum í leikjum eru foreldrar í raun að fara inn í kennslustofu þjálfarans og eru að reyna að kenna án þess að þekkja í raun námsefnið.
Lítum á þjálfarann sem kennara og leyfum honum og nemendunum að sýna afrakstur kennslu og heimavinnu. Megi besta liðið vinna.
Með von um ánægjulegt Essomót.
Stefán Ólafsson
Eins og sjá má á niðurlagsorðunum er greinin upphaflega skrifuð fyrir Essomót KA á Akureyri. Efnið er hins vegar sígilt og greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.
Íþróttameiðsli og þjálfun barna
Það er draumur allra ungra knattspyrnudrengja að verða atvinnnumenn í knattspyrnu, í það minnsta að leika í meistaraflokki. Eftir að hafa horft á Ronaldo og fleiri á HM þá sér maður hve miklu máli skiptir fyrir knattspyrnumenn að vera í alhliða góðu formi og lausir við meiðsli. Því miður verður draumur drengjanna oft að engu vegna meiðsla strax á unglingsárum, meiðsla sem oft hefði mátt koma í veg fyrir.
Það er vel þekkt að meiðsli barna eru samspil margra þátta og er talið að helmingur sé tengdur endurteknu álagi. Áverkar gera ekki boð á undan sér en hins vegar má oft sjá ákveðið munstur þar sem líkamsstaða, fótaburður, einhæf þjálfun og röng þjálfun spila saman við litla endurhæfingu hjá börnum eftir fyrri meiðsli. Það er því mikilvægt að foreldrar og þjálfarar þekki þessa þætti sem hægt er að leiðrétta og fækka þannig íþróttameiðslum barna og um leið bæta heilsu æsku landsins.
Skoðum nokkur atriði sem skipta miklu máli og minna á að líta ber á barnið í íþróttum sem eina heild. Enda hefur það verið sagt að verkir í hreyfikerfi séu sjaldan orsök einangraðra atburða :
Fótaburður þ.e staða hæls og siginn eða aukinn iljabogi. Sé t.d iljabogi siginn eykst verulega hætta á aftari beinhimnubólgu, rangt átak verður á hnéskel og liðbönd í hné vilja togna frekar vegna aukins snúnings og hliðarátaks á hné. Ber að hafa krossbandameiðsli sérstaklega í huga en þau sjást nú hjá æ yngri íþróttamönnum allt niður í 12 –13 ára aldur einkum hjá stúlkum og er miklu álagi og hörku kennt um. Hafa slíkir áverkar varanlegar afleiðingar þó að aðgerð hjálpi mörgum að halda áfram keppni. Aukinn iljabogi stuðlar hinsvegar oft að hásinavandamálum og hefur einnig áhrif á hné.
Styttingar kálfavöðva hafa oft tengingu við áðurnefndar skekkjur á il. Einnig eru þær frumorsök fremri beinhimnubólgu. Athyglisverðast er þó að skoða afleiðingar styttinga í djúpu kálfavöðvunum. Eykur það hættu á yfirréttu í hné sem þýðir í raun los í hnéliðnum sem er því útsettari fyrir áverkum á liðbönd og liðþófa auk þess sem verkir kringum hnéskel og sin fylgja yfirréttu á hné. Sé yfirrétta aukin þá eykst vinna aftanlærisvöðva sem reyna að halda gegn yfirréttunni og er þá aukin hætta á álagsmeiðslum og tognunum. Einnig virðast styttingar í kálfa auka líkur á ökklatognunum.
Vaxtarferillinn er það sem skilur börn og meiðsli þeirra frá fullorðnum. Er vaxtarlínan þeirra veikasti hlekkur einkum í hæl og neðan við hnéskel. Strákar lengjast um 65 cm og þyngjast um 55 kg að meðaltali frá 5-18 ára aldurs, en stúlkur um 50 cm og 37 kg. Vaxtarkippir geta komið hvenær sem er frá 10-18 ára aldurs og geta orðið allt að 8-12 cm á ári. Þessi breyttu hlutföll og aukin útlimalengd leggur mikið álag á vöðva og sinafestingar og ef styrkur er ekki nægur þá koma álagsmeiðsli fljótt þ.e. vefur vinnur nær hámarksgetu því vogararmur fótar hefur lengst.
Styttingar myndast ef vöðvi hefur ekki undan hröðum beinvexti og verður þá aukið tog á vaxtarlínu og vinna vöðvar í lengingu sem eykur álag á sinar og því koma þekktir “vaxtarverkir” í hæl eða á sköflungi. Er þessar styttingar algengari hjá strákum og kemur mikill stirðleiki oft fram milli 8 og 13 ára aldurs. Ef verkir eru frá vaxtarlínu þá þarf að taka tillit til þeirra og draga úr álagi einkum hlaupum og hoppum þó annað eins og t.d sund séu í lagi.
Meðan dregið er úr álagi þarf að auka áherslu á vöðvateygjur t.d kálfa og framan í læri meðan að vöðvar framan í legg og aftan í læri eru styrktir. Kæling, hlífar og teipingar geta hjálpað en álagsstjórnun er aðalatriðið. Einnig þarf að muna að brot við vaxtarlínu geta orðið við þó í fyrstu virðist vera um tognun að ræða. Vöxtur beina kemur á undan styrk og því er hávöxnum strákum með vanþroskaða vöðva hættast við meiðslum.
Styttingar vöðva framan í mjöðm og læri eru dæmi um afleiðingar einhæfs álags í knattspyrnu (sparkvöðvar) og skorts á teygjuæfingum á vaxtarskeiði. Afleiðingarnar geta verið t.d verkir í nára og framan í mjöðm og við hnéskel. Styttingarnar valda auknum framhalla á mjaðmargrind og aukinni fettu í mjóbaki. Fylgir því skertur styrkur kviðvöðva og óstöðugleiki og verkir í mjóbaki koma í kjölfarið. Hefur þetta áhrif á líkamsstöðu og verða þessi börn oft einnig hokin milli herðablaða og fá einkenni þaðan t.d við skólalærdóm eða frá öxlum stundi þau handbolta eða sund. Ennfremur er það hluti af munstrinu að gagnstæðir vöðvar þ.e aftanlærisvöðvar hafa skert útahald og styrk. Enda hefur það sýnt sig að tognanir aftan í læri eru algengustu meiðslin hjá fullorðnum.
Fótalengdarmismunur er enn einn þáttur sem hefur bein tengsl við áðurnefnd vandamál eins og yfirréttu á hné öðru megin, ójafnt álag á nára og mjöðm og verki og skekkjur í baki.
Óstöðugleiki liða eftir fyrri tognanir eða vegna líkamsstöðu og erfða. Nær allir sem snúa sig einu sinni um ökkla munu gera það aftur en samt hefur verið sýnt fram á verulega bættan stöðugleika með nokkra vikna jafnvægisþjálfun m.a á jafnvægisbretti.
Það sama má segja um hnémeiðsli en í nýlegri rannsókn stunduðu 1300 íþróttastúlkur sex vikna stöðugleikaþjálfun á undirbúningstímabili sem byggði á samhæfingu tauga og vöðvakerfis. Voru þáttakendur úr knattspyrnu, blaki og körfuknattleik : fólst þjálfunin í styrktaræfingum, teygjuæfingum, fræðslu um orsakir meiðsla og kenndar voru lendingar og fjöðrun þ.e að lenda á báðum fótum ef hægt er og að forðast yfirréttu á hné:
Árangur : 10 slitu fremra krossband í samanburðarhóp en 2 í æfingahóp.
Niðurstaða var að: Stöðugleikaþjálfun sé ein mikilvægasta forvörn liðbandameiðsla.
Skortur á endurhæfingu eftir meiðsli:
Hópur var rannsakaður í tvö 12 mánaða tímabil í knattspyrnu, ruðning og kastgreinum :
Meiðsli voru skráð á fyrra tímabilinu.
Mælingar voru gerðar á liðleika, líkamsstöðu, stöðugleika og hraða auk líkamlegra og sálrænna þátta er tengjast meiðslum :
Meiðsli á seinna tímabili réðust af :
1)dagafjölda í meiðslum á fyrra tímabili
2) líkamsstöðu/stöðugleika
3) hraða/snerpu einstaklings
4) fjölda “veikleika” í hreyfikerfi skv. Skoðun sjúkraþjálfara.
Niðurstaðan var að endurhæfing skuli miða að bættum “líkamsstöðugleika” þ.e góðri líkamsstöðu og styrk og stöðugleika við liðamót og fullri endurhæfing eftir “öll” meiðsli. Endurhæfing var annaðhvort óviðunandi eða of stutt þ.e þeir sem meiddust á fyrra tímabili voru líklegri til endurtekinna meiðsla. (U. Of Limerick, Int. J Sports Med 2001).
Harkan í íþróttunum hefur aukist og er sífellt algengara er að sjá börn vafin eða með stuðningshlífar vegna eymsla. Leikir og æfingar eru fleiri og er börnum oft hælt fyrir að spila “fast” og grófar tæklingar eru vaxandi og þurfa þjálfarar að kenna börnum rennitæklingar í þeim tilgangi að ná boltanum. Brýna þarf vissar grundvallarreglur fyrir börnum í íþróttum um hvernig skal brjóta af sér og þau þurfa að átta sig á að það er ekki alltaf flott að fórna sér í leikinn þ.e þau eru að keppa fyrir sig en ekki æsta foreldra og þjálfara. Gera þarf foreldra íþróttabarna mun meðvitaðri um samspil áhættuþátta við lengdarvöxt, álag og meiðsli. Dómarar þurfa að taka harðar á leikbrotum sem leitt geta til meiðsla og fræða þarf leikmenn því þeir þurfa líka að læra að vernda sjálfan sig.
Í íslenskri rannsókn kemur fram að klaufaleg brot orsaka mörg meiðsl í knattspyrnu auk þess sem undirlag er oft óviðunandi og meiðist sá brotlegi oft. ”. Minnir það mig á brottrekstur Thierry Henry á HM en hann hafði hæglega geta tognað á hné þegar hann renndi sér með löppina eitthvað út í loftið.
Þjálfarar og foreldrar mega ekki beita ung börn of miklum þrýstingi innan og utan vallar. Börn þurfa að læra á líkama sinn og ein mikilvægasta reglan fyrir börn er að bera virðingu fyrir verk og ekki keppa með verki því þá er hætta á alvarlegri og varanlegri meiðslum. Finna þarf orsök verksins og reyna að laga hana og þá munu verkirnir minnka.
Gera þarf fótboltakrakka meðvitaða um hvað þeir geta gert sjálfir:
í staðinn fyrir eða sem viðbót við fótboltaæfinguna, t.d að synda og hjóla ef verkir hamla hlaupum t.d vegna verkja frá ökkla, hæl og hné. Það er nefnilega oft tilhneyging með börn að annaðhvort séu þau á fullu eða í algjöru fríi í stað þess að reyna að gera eitthvað annað ef ekki er hægt að fara á æfingu. Gott er þá að vinna með önnur svæði t.d að styrkja bolinn ef hlífa þarf fótum. Einnig þarf að hafa í huga eftir meiðsli, að álag sé stigvaxandi í fyrstu þ.e að barnið fari ekki inn í spil á fullu áður en prófað hafi verið hvort það geti hoppað, sprettað eða tæklað því ef börn byrja vegna ytri þrýstings en eru ekki tilbúin þá er líklegt að þau færi álagið á önnur svæði t.d sparki bara með öðrum fæti eða lendi á einum fæti eftir hopp. Slíkt getur kallað á ný og alvarlegri meiðsli. Því þarf þjálfarinn að vera meðvitaður um að stundum fela börn meiðsli og eymsli fyrir þjálfaranum til að geta spilað. Þjálfarinn og barnið þurfa að vinna saman að því að leikmaðurinn nái sér sem fyrst og geri þannig sem mest gagn fyrir hópinn.
Ýmislegt í daglega lífinu er einnig þjálfun sem nýtist í íþróttinni t.d fyrir þá sem eru lausir kringum hné eða ökkla þá er góð æfing að renna sér á hlaupahjóli og standa í veikari fótinn og reyna að halda jafnvægi sem lengst eða að standa á einum fæti í sundlaug og kasta bolta á milli. Einnig má standa á einum fæti í rúmi eða þegar þið tannburstið ykkur. Til að gera æfingarnar erfiðari má loka augunum.
Atriði fyrir foreldra og þjálfara til að varna meiðslum barna:
Börn ákveða um 10 ára aldur hvort þau ætli sér að vera “athletic” og því ber að taka meiðsli þeirra og þjálfun alvarlega. Kenna þarf þeim rétta tækni við styrktaræfingar fyrir kvið, bak og læri en því er oft mjög ábótavant.
Lendi börn í alvarlegum meiðslum þá virðist andlegt ástand skipta máli. Hvernig þau upplifa orsök, bata og stuðning umhverfisins hefur áhrif á endurkomu í íþrótt. Góð og jákvæð sjálfsmynd hefur því góð áhrif á bata og endurhæfingu og eykur líkur á að þau haldi áfram í íþróttinni (Flint 91, Wiese-Bjornstal o.fl 98). Foreldrar þurfa að vinna með lækni og sjúkraþjálfara varðandi hvenær megi byrja á ný en áhugi barnsins eða pressa frá þjálfara eiga ekki að ráða. Ræðið því við þjálfarann þegar verið er að byrja á ný eftir meiðsli.
Regla númer eitt í þjálfun barna er að þau eru ekki smækkuð mynd af fullorðnum. Vegna vaxtar þolir líkami barna ekki sama álag og fullorðnir en samt eru börn t.d látin æfa meira en fullorðnir á möl og hörðu undirlagi. Sjúkraþjálfarar hafa of lítið sinnt forvörnum íþróttameiðsla barna. Eiga börn að hafa jafn greiðan aðgang að sjúkraþjálfurum og meistaraflokksmenn og er lausnin á öllum meiðslum barna því ekki að hvíla. Heldur þurfa börn og unglingar að stunda markvissari styrktar og stöðugleikaþjálfun á undirbúningstímabili ef þeir eiga að þola aukið álag og hörku ásamt fjölgun æfinga á stömu undirlagi eins og gervigrasi.
Tryggið að notaðar séu legghlífar.
* Gerið íþróttirnar að skemmtun. Of mikill þrýstingur á sigur hefur sýnt að börn geta lagt of hart að sér og aukið meiðslahættu.
* Leggja ber áherslu á teygjur frá 10-18 ára aldurs einkum þegar vöxtur er hraður. Kennið börnum teygjur á þá vöðva sem skipta máli fyrir íþróttina eins og kálfa og vöðva kringum hné og mjaðmir. Teygjuæfingar eiga að vera hluti af æfingunni.
* Góð upphitun hækkar líkamshitann og undirbýr þannig vöðva og liði.
* Kennið börnum að verkur sé varnarviðbragð líkamans til að segja okkur að eitthvað sé að.
* Fylgist vel með bólgu hjá börnum því oft verða alvarleg meiðsl þó virðist lítil í fyrstu og eru meiðsl sem líkjast liðbandatognun fullorðinna oft beinbrot hjá börnum.
* Mikilvægt er fyrir knattspyrnumenn að hafa stöðugleika og styrk kringum bak, kvið, mjaðmir og hné vegna endurtekinna sveifluhreyfinga á fæti.
* Látið athuga fótaburð barnsins og fótalengd ef einkenni eða ójafnt slit á skóm gefa ástæðu til. Innlegg gætu þá verið nauðsyn.
* Hvíld er besta lækning við íþróttameiðslum barna einkum eftir áverka, gróandi er yfirleitt góður ef við gefum líkamanum tíma til að vinna. Nægur svefn skiptir því máli því þá er mesta virknin í viðgerðarferlinu.
* Börn sem leika upp fyrir sig í aldri eða í fleiri en einu liði eru útsettust fyrir áverkum og álagsmeiðslum.
* Brýnið fyrir börnum háttvísi ,“fair play”.
* Kenna þarf börnum sjálfum og foreldrum fyrstu hjálp eins og notkun á ís, einföldum vafningumog notkun þrýstisvampa sem skipta sköpum einkum eftir höggáverka.
* Tryggið börnum fullnægjandi endurhæfingu eftir meiðsl.
Vona ég að þessar línur hafi vakið einhverja til umhugsunar og undirstrikað að börnin eru í raun dýrmætustu íþróttamennirnir.
Stefán Ólafsson