Fáðu fréttir og tilkynningar sendar með tölvupósti
Flýtilyklar
Svaðilför á Austurlandið
Strax við brottför urðu liðin fyrir skakkaföllum er ljóst var að sterkir liðsmenn kæmust ekki í ferðina. Því var ekki verra að hafa með nýbakaðan, fjórfaldan Íslandsmeistara í frjálsum. Já, sá meistari var í banastuði alla ferðina, sér og öðrum Grenvíkingum til mikils sóma.
Fátt markvert gerðist á leið austur nema hvað annar fararstjórinn lét móðan mása um íslenska jarð- og landafræði. Sagði hann strákunum ófáar æsi- og hryllingssögur af náttúruhamförum og áttu greyin erfitt með að halda í sér pissinu sökum hræðslu. Þurfti því tvö pissustopp á leiðinni. Undarlegt var að sjá drengina hlaupa 100 metra frá rútunni til að létta á sér. Einhver hræðsla við kvenmannin um borð hefur kannski ráðið því. Við komumst ósködduð yfir brúna á Jökulsá, sluppum við aurskriður í Fagradal og sem betur fer hrundu göngin í Oddsskarði ekki þannig að við náðum heil og hress niður í Norðfjörðinn fagra í þvílíkri sólarblíðu.
A1 hóf leik gegn Fjarðarbyggð og var í dálitlum vandræðum í byrjun. Í stöðunni 2-0 fengu Austfirðingar víti þegar boltanum ver spyrnt í höndina á Sveini. Nýttu þeir vítið en gáfu mark í staðinn og svo slökkti Þorvaldur endanlega á Fjarðarbyggð þegar hann skoraði með þrumufleyg. Mörk bættust svo við allt til loka og endaði leikurinn 9-1. Skelfilegt var að sjá dauðafæri hjá Arnóri og Sveini fara í súginn á lokamínútunni. Þess má til gamans geta að einn leikmaður fékk að líta gula spjaldið eftir athyglisverð orðaskipti við dómara leiksins. Enginn dónaskapur svo sem, en þeir félagar voru ekki sammála um hvort hægt væri að gefa gula spjaldið í 5. flokki og þar hafði dómarinn klárlega síðasta orðið.
B1 tók svo við keflinu og mjög snemma var staðan orðin 3-0. Jón Þorri fékk að fara úr markinu og Einar leysti hann af og var ansi gaman að sjá þá eftir hlutverkaskiptin, annar í níðþröngri treyju en hinn í tjaldi. Leiknum lauk með öruggum 8-0 sigri.
Þá var líklega komið að hápunkti dagsins hjá einhverjum. Pizza, franskar og gos á fínasta stað sem heitir Pizzafjörður. Ekki gat ég nú annað en vorkennt aumingja ítalska parinu sem sat þar inni þegar hungraðir úlfarnir hópuðust inn á þröngan staðinn. Dönsuðu piltar í kring um borðið þeirra á meðan þeir fengi sér fyrsta skammtinn kátir og hressir eftir góða sigra. Var okkar mönnum svo vísað til borðs í stóru tjaldi úti á palli. Þar gripu þeir hraustlega til matar síns og var nóg að gera hjá starfsfólki við að bæta á diskana.
Ekki endaði þessi matarveisla of vel þar sem ákveðnir aðilar fóru að henda kartöflum hverjir í annan. Sonja Sif var fljót að grípa í taumana og virtust menn skammast sín dálítið. Í rútunni gerði ég strákunum svo grein fyrir því að þeir væru að ferðast sem fulltrúar félagsins og þyrftu að haga sér vel í nafni KA, ekki vildum við fá slæmt orð á félagið. Seinna lýsti rútubílstjórinn yfir ánægju með það hvað við værum mikið að skipta okkur af strákunum, hann væri ekki vanur svona fararstjórum (það er alltaf gaman að fá hrós en satt að segja kom þetta okkur dálítið á óvart).
Komið var á náttstað á Egilsstöðum um kl 20:30. Menn voru fljótir að koma sér fyrir en svo var bara ærslast úti í fótbolta og inni í borðtennis og pool. Seinna opnaðist möguleiki á að horfa á 70 mínútur og fara í FIFA14 og datt þá allt í dúnalogn okkur Sonju til mikillar gleði. Rákum við alla undir sæng um miðnættið (já við vorum ekkert að stressa okkur á þessu) og voru flestir sofnaðir skömmu síðar. Sonja Sif sofnaði ekki strax og fékk að hlusta á strákana prumpa í svefni, tala hvern í kapp við annan og gnísta tönnum.
Ræst var kl 9:05 morguninn eftir. Furðulegt hvað höfuðverkurinn var mikill þegar ég vaknaði. Tók nú við mikið hangs og leist okkur ekkert á að þurfa að hafa ofan af fyrir strákunum í sex klukkutíma. Sundferðin tók tvo tíma og þar voru allir sér og félaginu til sóma, fyrir utan einn ónefndan nafna minn, sem stal handklæði af liðsfélaga sínum og skildi sitt bara eftir. Við gerðum svo okkar besta við að troða sem mestu af matarbirgðum okkar ofan í pilta og loks voru allir klárir í seinni leikina.
A1 var í smá basli með að brjóta vörn Hattar á bak aftur en Sveinn skoraði furðumark fyrir hlé. KA hélt svo áfram að sækja allan seinni hálfleik og bætti Þorvaldur við tveimur mörkum. Annað var með þrumuskoti en hitt skotið hans hefði líklega ekki drifið á markið en markvörður Hattar, sem annars stóð sig frábærlega í leiknum, hjálpaði upp á með því að missa boltann inn fyrir línuna. Atli skoraði svo eitt og endaði leikurinn því 4-0. Þorvaldur var eitthvað skrýtinn eftir leik og taldi sig hafa skorað þrjú mörk, ekki furða að menn ruglist í svona markasúpu.
B1 byrjaði vel og voru strákarnir komnir í 3-0 í hálfleik. Birnir var sjóðheitur, enda nýkominn austur og átti eftir að sýna sig. Hann skoraði tvö af mörkunum en Gabríel eitt. Í stöðunni 4-0 setti Míló Jón Þorra út og Birni í markið og fljótlega var staðan orðin 4-2. Tvö sjálfsmörk og Míló skipti aftur. Birnir skoraði svo þriðja markið sitt og endaði leikurinn 5-2. KA skoraði öll mörkin í leiknum.
Heimleiðin gekk eins og í sögu. Liðin fóru á Subway og tel ég að menn hafi verið óvenju þyrstir þar inni enda frí áfylling á ,,gosi". Skipuðum við öllum að tappa af sér fyrir brottför en strax í Jökuldalnum var Viktor kominn í spreng. Tókum við pissustopp skömmu síðar. Er komið var í Reykjadalinn hófst æsileg spurningakeppni þar sem menn fóru á kostum í visku. Ótrúlegt hvað þessir guttar vissu mikið um Pútín, Hönnu Birnu, hljómsveitina Kiss og alþjóðlegan fótbolta. Sárt var að heyra sum svörin þegar spurt var um leikmenn KA, kvennaboltann og nýkjörinn forseta Tyrklands. Endaði spurningakeppnin í bráðabana og eftir hann var staðan 11-11.
Lauk þar með ansi skemmtilegri ferð. Liðsmenn stóðu sig í heildina vel og fá ágæta einkunn fyrir allt nema hljóðlæti (það þarf ekki alltaf að hafa svona roooosalega hátt).
Kær kveðja, Einar
Leit
Skráning á póstlista
Fréttir frá KA-sport.is
- 29.09.2021 Bikarveislan framundan hjá KA/Þór
- 28.09.2021 Nökkvi og Þorri framlengja út 2024
- 28.09.2021 Fjórar frá KA/Þór í A-landsliðinu
- 28.09.2021 Steinþór Már bestur á lokahófi KA
- 28.09.2021 Opinn félagsfundur um málefni Spaðadeildar KA