Nýjir búningar væntanlegir

Kæru foreldrar og forráðamenn

Eins og kannski einhverjir hafa tekið eftir þá er starfsfólkið í Toppmenn & sport á fullu þessa dagana að raða upp nýjum KA treyjum frá Diadora. Við viljum koma því á framfæri að eins og staðan er í dag þá eru þessar vörur ekki alveg að fullu unnar þar sem að það á eftir að setja allar auglýsingar á búningana. Við hjá yngriflokkaráði KA höfum ákveðið að fara þá leið að hver iðkandi eigi sína keppnistreyju í stað þess að vera með búninga í eigu félagsins sem einungis eru nýttir þegar keppt er. Á undanförnum árum hafa týnst heilu búningatöskurnar og ekki komið í leitirnar sem er gríðarlegt tjón auk þess sem heilmikil vinna felst í því að sjá um búningana fyrir heilan flokk.

Við vonumst til að með þessu muni krakkarnir nota keppnistreyjurnar sínar mikið og vera sýnilegir í þeim. Hver iðkandi sér um sína treyju og getur notað hana að vild, hver vill ekki vera í KA treyju við öll tækifæri :). Þetta fyrirkomulag sparar auk þess heilmikla vinnu fyrir flokksráðin og þjálfara varðandi umsjón og þvotta á búningum.

Það er okkur mikil ánægja að geta gefið öllum iðkendum nýja Diadora keppnistreyju með æfingagjöldunum núna í vor. Á allra næstu dögum verða æfingagjöld og möguleikar á greiðslum kynntar nánar.

Númeraúthlutun:
Í 11 manna bolta er gert ráð fyrir að ekki séu fleiri en einn iðkandi í sama númeri og viljum við venja okkar krakka við það sem fyrst. Því fá iðkendur fæddir 2005 (eldra ár í 6.flokki) og upp úr úthlutað númeri sem þeir munu síðan nota upp alla yngriflokka félagsins. Fyrirkomulagið verður svona:

Iðkendur á eldra ári í 6.flokki, 5.,4.,og 3.flokkur greiða æfingagjöld á netinu, koma í KA, fá afhent gjafabréf og draga sér númer sem sett verður á treyjuna.

Þeir iðkendur sem fæddir eru á oddatölu 2005,2003, 2001,1999 draga eingöngu úr oddatölum.
Þeir iðkendur sem fæddir eru á sléttri tölu 2004, 2002, 2000 draga eingöngu úr sléttum tölum.

Iðkendur í 8.,7., og á yngra ári í 6.flokki greiða æfingagjöld á netinu, koma í KA og fá afhent gjafabréf fyrir treyju sem þeir geta sótt. Foreldrar geta látið merkja treyjuna með nafni barns og hvaða númeri sem þeim dettur í hug en merkingin er á kostnað foreldra.

Nánara fyrirkomulag á greiðslum og dráttur á númerum verða kynnt hérna á heimasíðunni á næstu dögum.

Kærar kveðjur
Yngriflokkaráð



Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | fotbolti@ka.is